Ágústa Sigrún Ágústsdóttir gekk nýverið til liðs við Carpe Diem, en fyrirtækið veitir þjónustu á sviði mannauðsmála, stjórnendamarkþjálfunar, námskeiða og fyrirlestra auk almennrar ráðgjafar og leiðtogaþróunar.

Ágústa hefur síðastliðin níu ár starfað sem mannauðsstjóri hjá flugfélögunum Primera Air og nú síðast WOW air og sat í framkvæmdastjórn þeirra. Í tilkynningu segir að í hlutverki sínu hjá Carpe Diem muni Ágústa leggja áherslu á mannauðsráðgjöf. Ennfremur mun hún vinna sem stjórnendamarkþjálfi í teymi markþjálfa Carpe Diem.

Ágústa lauk meistaranámi í Stjórnum og eflingu mannauðs (Organizational Behaviour and Talent Management) frá Háskólanum í Reykjavík á síðasta ári og mannauðsstjórnun frá EHÍ árið 2008. Þá hefur hún réttindi sem stjórnendamarkþjálfi frá Opna háskólanum. Ágústa er einnig söngkona og söngkennari að mennt og syngur í hljómsveit í frístundum. Hún hefur tekið þátt í óperuuppfærslum og komið víða fram sem einsöngvari og gefið út tónlist.