Opnuð hefur verið veitingaþjónusta á Aha.is þar sem notendum gefst kostur á að velja af matseðlum þrjátíu veitingastaða, sækja svo matinn eða fá sendan heim gegn gjaldi.

Fram kemur í tilkynningu frá Aha.is að þjónustan auðveldi neytendum og veitingahúsum til muna þessi viðskipti með snjöllum hugbúnaði sem nær úr stofunni heima inn í eldhús veitingastaðarins. Þegar viðskiptavinur hefur pantað mat í gegnum vefsíðuna eða app Aha.is birtist pöntunin á skjá hjá veitingahúsinu og ráðstafanir þegar gerðar til að útvega flutning á matnum sé heimsendingar óskað.

Maron Kristófersson, framkvæmdastjóri Aha.is, segir að prófanir á kerfinu hafi staðið yfir í þrjá mánuði og um þúsund pantanir hafi verið gerðar á þeim tíma. Býst hann við að fjöldi veitingastaða muni tvöfaldast um áramót.