Ákveðin samþjöppun getur falist í skuggabankastarfsemi og getur það skapað kerfislæga áhættu. Þess vegna er mikilvægt að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fylgist vel með eðli og umfangi starfseminnar, að mati Jóns Þórs Sturlusonar, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins, í samtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins í dag.

Skuggabankastarfsemi, þ.e. miðlun fjármuna sem er þó utan hins skilgreinda bankakerfis, hefur færst verulega í vöxt á síðustu árum, bæði á Íslandi og erlendis. Jón Þór segir að ekki sé hægt að útiloka að starfsemin hafi þann tilgang að komast hjá fjármálaeftirliti. Það skapi ójafnræði milli þeirra sem eru innan og utan hins formlega bankakerfis.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa hertari lausafjárreglur, sem hafi reynst bönkunum íþyngjandi, ýtt undir að almenn bankaviðskipti fari fram í skuggabankakerfi.