Ríkissjóður tók á sig 296 milljarða króna áhættu í þágu kröfuhafa við svokallaða seinni einkavæðingu bankanna, þ.e. þegar ákveðið var að nýju bankarnir skyldu vera að hluta í eigu kröfuhafa föllnu bankanna þriggja eftir hrun þeirra 2008.

Er þetta meðal niðurstaðna skýrslu, sem meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefur látið vinna. Formaður og varaformaður nefndarinnar, þau Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, kynntu skýrsluna á blaðamannafundi í dag.

Eftir hrunið í október 2008 yfirtók íslenska ríkið bankana með neyðarlögunum og var Fjármálaeftirlitinu falið hafa umsjón með endurreisn þeirra. Gert var ráð fyrir yfirtöku íslenska ríkisins á föllnu bönkunum undir yfirstjórn FME, að því er segir í úrdrætti úr skýrslunni.

„Fljótlega í byrjun árs 2009 tók þáverandi fjármálaráðherra fram fyrir hendurnar á Fjármálaeftirlitinu og hóf samningagerð upp á eigin spýtur við hina erlendu kröfuhafa bankanna. Með þessu inngripi voru ákvæði neyðarlaganna höfð að engu. Þess í stað voru kröfuhöfum færðir íslensku bankarnir með tugmilljarða króna meðgjöf frá skattgreiðendum. Áhættunni var hins vegar ekki létt af ríkissjóði.

Ekki verður önnur ályktun dregin en að samningagerðin hafi að stórum hluta gengið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhald á bönkunum, en samt sem áður var ábyrgð af endurreisninni hjá skattgreiðendum og fallið frá milljarða króna vaxtagreiðslum. Eftir að fjármálaráðuneytið hafði tekið völdin af FME voru gengistryggðu lánin endurvakin í nýju bönkunum. Var þetta þvert á ákvarðanir FME frá í október 2008 um að flytja öll útlán yfir í nýju bankana í íslenskum krónum,“ segir í samantektinni.

Á ákveðnum tímapunkti hafi Seðlabankinn verið látinn leysa húsnæðislán einstaklinga úr veðböndum og færa inn í þrotabú Kaupþings og Glitnis svo að hægt væri að innheimta þau í þágu kröfuhafanna. Kröfuhafarnir hafi notað húsnæðislánin til að greiða fyrir stofnfjárframlag í nýju bönkunum.

„Útkoma þessara samninga var sú að kröfuhafar eignuðust tvo bankanna nánast að fullu án þess að leggja fram eðlilegt fjármagn af sinni hálfu. Samningamenn fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans afhentu kröfuhöfunum eignir almennings. Um leið afsöluðu þeir meira og minna mögulegum ávinningi ríkisins af þeirri ábyrgð sem það tók á sig frá hruni bankanna.

Áhætta um framtíð bankanna var lögð á íslenska skattgreiðendur með þessum samningum. Ef hagkerfið hefði ekki rétt úr sér hefði tap bankanna lent á ríkissjóði. Ein helsta röksemd þáverandi fjármálaráðherra fyrir því að falla frá fyrirhugaðri yfirtöku ríkisins á bönkunum þremur hefur verið sú að áhættan hafi verið allt of mikil fyrir ríkissjóð. Þær upplýsingar sem hér koma fram sýna þvert á móti að ríkissjóður tók þessa áhættu á sig í raun og veru, en eignaðist aðeins einn bankann af þremur í stað þess að eignast þá alla. Arion banki og Íslandsbanki, sem komu í hlut kröfuhafanna, hafa skilað 288 milljarða króna hagnaði á þessum tíma sem um ræðir,“ segir í samantektinni.

Sem áður segir er niðurstaða skýrslunnar að ríkissjóður hafi verið settur í áhættu fyrir samtals 296 milljörðum króna vegna bankanna þriggja, þótt ríkið fengi aðeins einn þeirra í sínar hendur. Þetta sé nánast sama fjárhæð og í upprunalegu áætlunum neyðarlaganna, sem miðuðust við að ríkið eignaðist alla bankana fyrir að taka þessa áhættu. Áhætta ríkisins af hverjum banka fyrir sig var, samkvæmt skýrslunni, sem hér segir:

  • Arion banki 117 milljarðar króna.
  • Íslandsbanki 57,3 milljarðar króna.
  • Landsbankinn 122 milljarðar króna.

Þá segir í henni að ekki hafi áður komið fram að 44 milljarða króna ávinningur ríkisins þetta eina ár sem bankarnir voru þó í eigu þess hafi farið að fullu til kröfuhafa.

„Í fundargerðum sem eru í fylgiskjölum má finna sérstakt viðhorf viðhorf samningamanna ríkisns t.d má nefna orð ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu á fundi eftir að samningar við kröfuhafa voru komnir þangað inn á borð. Þar sagði hann „mikilvægt að trufla ekki samband skilanefndanna og kröfuhafanna. Ríkið vill friðþægja kröfuhafa eins og mögulegt er.“ Annað dæmi er frá 14. fundi stýrinefndar ríkisstjórnarinnar. Þar segir erlendur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, sem sá um samskipti við kröfuhafa, þá skoðun sína að menn eigi að leggja sig fram „og einbeita sér báðum megin borðs.“ Margt bendir til að afleiðingar þess að kröfuhafar eignuðust tvo af þremur bönkunum hafi birst í aðgangshörku gagnvart skuldurum, einstaklingum jafnt sem fyrirtækjum.

Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar með samningnum um stöðugleikaframlag tryggja að skattgreiðendur bera ekki skaða af einkavæðingu bankanna hinna síðari. Það var á engan hátt sjálfgefið.“