Eins og sagt var frá í gær var nýliðið ár hið versta á bandarískum hlutabréfamörkuðum í áratug, og desembermánuður hinn versti frá 1931. Verðmatsfræðagoðsögnin Aswath Damodaran, sem kennir fjármál við New York-háskóla, gerði upp árið á bloggsíðu sinni um daginn. Þar segir hann árið hafa virst verra en það var, af þremur ástæðum. Lækkanirnar hafi eðlilega verið mikil viðbrigði eftir tæpan áratug hækkana, þær hafi riðið yfir á tiltölulega skömmum tíma í lok árs, eftir hóflegar hækkanir framan af ári, svo fallið frá hápunktinum sé hærra en árslækkunin, og loks hafi aukið flökt bæði innan og milli daga aukið hræðsluna – og tap þeirra miðlara sem reyndu að bregðast við.

Næst víkur hann að áhættuálagi hlutabréfa (e. equity risk premium) – því álagi sem fjárfestar krefjast umfram áhættulausa ávöxtun fyrir það að fjárfesta í hlutabréfum – og rekur þróun þess yfir árið. Í upphafi árs reiknaðist honum til að það væri 5,09%, en í upphafi október var það komið í 5,38%, og í lok október var það 5,76%. Eftir sögulega slæman desembermánuðinn stendur álagið nú í 5,96%, og hefur sjaldan verið hærra. Álagið hefur aðeins þrisvar verið hærra frá 1960: árin 1979, 2009 og 2011.

Hann tekur fram að ýmsar hættur sem steðja að hlutabréfamörkuðum á næstunni geti haft áhrif á matið. Hann telur markaðinn þó þegar hafa gert ráð fyrir að í það minnsta tvær af þeim raungerist: minni hagvöxtur og einhvers konar stjórnmálakrísa, en að auki segir hann markaðinn geta staðist töluverða hækkun vaxta og samdrátt í útgreiðslum til hluthafa, sem hafa verið óvenjumiklar síðustu misseri.

Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar býst Damodaran frekar við að hlutabréfamarkaðir taki við sér á árinu en að þeir haldi áfram að lækka. Verði eitthvað til þess að sú spá gangi ekki eftir, býst hann við að það verði meiri kulnun alþjóðahagkerfisins en búist er við.

Komandi uppgjör leggja línurnar fyrir árið
Per Henje, einn af sjóðstjórum alþjóðlegra hlutabréfasjóða hjá sjóðstýringarfyrirtækinu Stefni, segir árið hafa einkennst af töluverðum sveiflum. Rekstur fyrirtækja hafi almennt gengið ágætlega, en vaxandi svartsýni og áhyggjur af alþjóðasamskiptum hafi sett strik í reikninginn. „Erlendir markaðir voru nokkuð sterkir framan af ári, en áhyggjur af tollastríði milli Bandaríkjanna og Kína, auk minnkandi hagvaxtar, sérstaklega í Evrópu og Kína, hrintu af stað lækkunarhrinu á fjórða ársfjórðungi á nær öllum mörkuðum. Þetta hefur svo valdið áhyggjum af því að hagnaðarvöxtur fyrirtækja verði kannski ekki eins mikill og vonir hafa staðið til, og fyrirtæki hafa gætt aukinnar varkárni varðandi framtíðarhorfur, þrátt fyrir að hann hafi verið mjög góður á síðasta ári, og uppgjör almennt mjög góð. Þó að verðlagning á erlendum hlutabréfamörkuðum hafi ekki verið lægri í langan tíma, þá mun uppgjörstímabilið sem nú er að fara af stað eflaust leggja línurnar fyrir árið að einhverju leyti. Hins vegar má búast fastlega við að heimspólitík og spenna í alþjóðasamskiptum muni spila stóra rullu áfram í þeim efnum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .