Í nýju frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um fjármálafyrirtæki er kveðið á um að öll fjármálafyrirtæki eigi að starfrækja áhættunefnd. Nefndin skal skipuð að lágmarki þremur mönnum og þar af tveimur stjórnarmönnum. Starfsmönnum er óheimilt að eiga sæti í nefndinni. Í frumvarpinu segir að nefndin skuli sinna ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn fyrirtækisins, m.a. vegna áhættustefnu og áhættuvilja.

Ekki eru tiltekin nein stærðartakmörk til að fyrirtæki þurfi að starfrækja slíka nefnd. Aftur á móti segir að heimilt sé að sameina störf áhættunefndar og endurskoðunarnefndar. Einnig getur Fjármálaeftirlitið veitt undanþágu frá rekstri áhættunefndar með hliðsjón af stærð, eðli og umfangi rekstrar. Ljóst er að minni fjármálafyrirtæki líta til þess að fá undanþágu frá því að starfrækja slíka nefnd og líta til undanþágu frá starfrækslu endurskoðunarnefndar sem fordæmi.

Í reglugerð Fjármálaeftirlitsins er haft sem viðmið að stöðugildi séu undir 100 talsins og að heildareignir séu undir 100 milljarðar króna.