Áhættusamara er að fjárfesta á Íslandi en í nokkru öðru ríki Vestur-Evrópu samkvæmt áhættumati tryggingafyrirtækisins Aon, sem Fréttablaðið segir frá í dag. Áhættan felst meðal annars í pólitískum afskiptum, verkföllum, óeirðum og hættu á greiðsluþroti íslenska ríkisins. Þá er einnig nefnd gengisáhætta vegna krónunnar.

Í Fréttablaðinu kemur fram að lönd sem lenda í sama áhættuflokki og Ísland eru til dæmis Egyptaland, Rússland, Kína, Tyrkland, Lettland og Albanía. Lönd sem talin eru skárri til fjárfestinga eru til dæmis Mexíkó, Marokkó, Túnis, Búlgaría og Litháen.