Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi í flugrekstri, telur mjög áhættusamt fyrir Play að fara í loftið í haust. Frá þessu er greint á vef Túrista .

„Það verður að teljast mikil áhætta að hefja flug nú í haust. Bókanir fram í tímann eru ennþá mjög takmarkaðar og vegna Covid-19 þá vitum við ekki hvaða markaðir opnast eða hvernig eftirspurnin þróast. Það er líka hægt að spyrja sig hver vill, á þessum óvissutímum, kaupa flugmiða hjá nýju flugfélagi sem fólk þekkir ekki til. Og höfum í huga að Play hefur haft áform um að fljúga til áfangastaða sem nú þegar önnur flugfélög bjóða upp á ferðir til frá Íslandi. Félagið yrði ekki bara í samkeppni við Icelandair heldur líka þekkt erlend flugfélög,“ útskýrir Elnæs.

„Ég hef áður sagt að ég tel ekki að Icelandair verði gjaldþrota en ef það myndi gerast á næstu mánuðum þá væri það sennilega eina ástæðan fyrir Play að byrja nú þegar í ár. Önnur flugfélög kæmu þá líka inn á markaðinn í auknum mæli. Félög eins easyJet, Wizz, SAS, Transavia, Norwegian og Aerlingus geta byrjað um leið því öll eru þau með umframafkastagetu í dag. Þau þurfa ekki fyrst að leigja flugvélar, ráða áhafnir o.s.frv.“