Nokkrir af æðstu stjórnendum First Republic Bank seldu hlutabréf í bankanum fyrir milljónir dala nokkrum vikum áður en hlutabréfaverð hans hríðlækkaði. Wall Street Journal greinir frá.

Alls hafa innherjar selt hlutabréf í First Republic fyrir 11,8 milljónir dala, eða um 1,7 milljarða króna, frá áramótum á meðalverði rétt undir 130 dali á hlut. Til samanburðar stendur gengi bankans nú í 33 dölum eftir meira en 70% lækkun frá áramótum.

Áhættustjóri (e. chief risk officer) First Republic seldi hlutabréf í bankanum þann 6. mars síðastliðinn, samkvæmt gögnum hjá tryggingasjóði innstæðueiganda í Bandaríkjunum (FDIC). Tveimur dögum síðar hríðlækkaði gengi Silicon Valley Bank með tilheyrandi óróa á fjármálamörkuðum.

Stjórnendur First Republic hafa selt hlutabréf í bankanum undanfarna mánuði samkvæmt gögnum FDIC. Stjórnarformaðurinn James Herbert II hefur selt hlutabréf fyrir 4,5 milljónir dala, eða um 635 milljónir króna, frá áramótum.

Talsmaður hins 78 ára Herbert segir að salan hafi verið í samræmi við árlega yfirferð á eignasafni og góðgerðastörfum hans. Meira en fimmtungur af ágóðanum renni til líknarstarfs.

Þá seldu framkvæmdastjóri útlána, forstöðumaður eignastýringasviðs og forstjóri First Republic samtals fyrir 7 milljónir dala eða sem nemur nærri einum milljarði króna.

Innherjaviðskiptin ekki tilkynnt til SEC

Í umfjöllun WSJ segir að lítið hafi farið fyrir sölu stjórnendanna þar sem, ólíkt flestum fyrirtækjum, ber First Republic ekki að tilkynna um innherjaviðskipti til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC). Þess í stað voru viðskiptin tilkynnt til FDIC sem birtir upplýsingar um þau í gagnagrunni sínum. Bankinn greinir einnig frá innherjaviðskiptunum á heimasíðu sinni.

First Republic Bank er eina núverandi félagið innan S&P 500 vísitölunnar sem tilkynnir ekki um innherjaviðskipti hjá SEC. Það sama átti við um Signature Bank sem var hluti af vísitölunni fram að falli bankans um helgina.

Þetta frávik frá tilkynningarskyldu til SEC er rakið til breytinga á verðbréfalögum árið 1933.