Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður áhættustýringar hjá Creditinfo, segir að áhættustýring sé mikilvægari í uppsveiflu en niðursveiflu auk þess sem hún væri besta leiðin að upplýstum ákvörðunum. Kom þetta fram í ráðstefnu Creditinfo á dögunum, sem haldin var undir yfirskriftinni „Leiðin að upplýstum ákvörðunum.“

Gunnar sagði það gagnlegt fyrir fyrirtæki að fylgja leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja við mótun áhættustefnu, valdsvið stjórnenda yrði skýrara og traust fjárfesta ykist, jafnframt auki það yfirsýn yfir áhættu og bætti upplýsingagjöf til stjórnar.

„Áhættustýring er endalaust hagsmunamat, fyrirtæki eru að meta hversu líklegir atburðir eru og hversu alvarlegir þeir yrðu í samanburði við kostnaðinn við að koma í veg fyrir þá,“ sagði Gunnar. Hann talaði um að áhættustefna væri vanalega innra skjal fyrirtækja en þó væri það að breytast og nefndi að fyrirtæki líkt og Orkuveita Reykjavíkur og Reginn birtu hana opinberlega.