Björn Björnsson hefur nú í tvígang þjálfað kvennalandslið Íslands í hópfimleikum til sigurs á Evrópumóti í íþróttinni. Auk þess hefur hann fagnað fjölda Íslandsmeistaratitla í íþróttinni með liði Gerplu sem hann hefur þjálfað síðastliðin ár. Björn ver stundum sínum þó ekki aðeins í íþróttasalnum heldur er hann forstöðumaður á viðskiptabankasviði Íslandsbanka og vinnur þar við viðskiptagreiningu.

„Þetta hefur ekki vafist fyrir mér hingað til,“ segir Björn aðspurður um hvernig gangi að samþætta störfin tvö. Björn mætir til vinnu í bankanum klukkan átta á morgnana og sinnir henni til klukkan fimm eða sex á kvöldin. Þaðan heldur hann beint í íþróttahúsið þar sem kvennaliðið æfir frá klukkan sjö til tíu á kvöldin.

Hann segir landsliðskonurnar gera mikið grín að sér fyrir að halda meira og minna utan um þjálfunina í Excel. „Það er mikið púsluspil að setja saman besta mögulega liðið, við höfum nýtt okkur verkfræðilega nálgun, smíðað líkön og beitt tölfræði til að halda utan um það. Þar metum við árangur þeirra og getu og ákveðum hvernig stilla má saman besta liðinu. Besta liðið í hópfimleikum samanstendur ekki alltaf af bestu einstaklingunum heldur bestu blöndunni. Svo þegar komið er til keppni þarf að meta hversu mikla áhættu hægt er að taka. Þar nýtir maður kannski þekkinguna úr áhættustýringunni,“ segir Björn. „Þannig ákveðum við hversu flóknar æfingar á að framkvæma, miðað við áhættuna á því að þær mistakist og ávinninginn af því ef þær ganga upp.“

Nánar er fjallað um málið í  Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.