Á næstu vikum mun áhafnarekstur Eimskipa fara í gegnum félagið Fossar í Færeyjum en það er 100% í eigu Eimskips. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Ástæðan fyrir breytingunni er fyrst og fremst það hagstæða umhverfi sem býðst í Færeyjum, með tilliti til skipskráningar og hagfells umhverfis í skattamálum sem fyrirtækjum stendur til boða. Færeysk stjórnvöld bjóða fyrirtækjum á þessu sviði endurgreiðslu á tekjuskattsgreiðslum áhafna upp á 28%.

Það er mat Eimskips að íslenskir sjómenn verði samkeppnishæfari á alþjóðlegum markaði með þessari breytingu.

Í Færeyjum rekur Eimskip eitt stærsta fyrirtæki eyjanna með um þrjá milljarða íslenskra króna í veltu, með tæplega 200 starfsmenn, fimm skip og um 25 vöruflutningabíla í innanlandsakstri.

Eimskip rekur um 30 skip sem þjóna stórum og alþjóðlegum hópi viðskiptavina og eru um 20 af þeim flota, skip sem aldrei koma til Íslands.

?Í slíku alþjóðlegu rekstrarumhverfi er nauðsynlegt fyrir Eimskip að nýta þau tækifæri sem eru til staðar, hvort sem um er að ræða viðskiptatækifæri eða tækifæri til að hagræða í rekstri" segir í fréttatilkynningunni.