Aðhaldsaðgerðum stjórnvalda í kjölfar bankahruns svipar nokkuð til þeirra sem farið hefur verið í á Norðurlöndunum þegar harnað hefur á dalnum.

Þetta segir í Hagsýn, fréttariti efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

„Með svipuðum hætti var brugðist við kreppum í Svíþjóð og Finnlandi árið 1993 og í Danmörku í byrjun níunda áratugarins. Tekið var með festu á útþöndum ríkisútgjöldum til að laga þau að breyttum veruleika, en fyrir vikið varð vöxtur hraðari þegar stigið var upp úr kreppunni.

Á hinum Norðurlöndunum var ekki leitað til AGS um mótun efnahagsáætlunar, en á Íslandi var aðkoma sjóðsins óumflýjanleg vegna umfangs banka- og gjaldeyriskreppunnar. Ákvörðunin um að leita til sjóðsins haustið 2008 veitti efnahagsstefnu Íslands alþjóðlegan trúverðugleika og sérfræðiþekking starfsmanna AGS var veigamikil í þeim aðgerðum sem fóru í hönd. Lánafyrirgreiðsla sjóðsins hefur forðað ríkissjóði frá hættu á greiðslufalli vegna hárra útistandandi skulda sem eru á gjalddaga í ár og það næsta og jafnframt settu Norðurlöndin það sem skilyrði við lánveitingum sínum að efnahagsáætlun Íslands og AGS væri á réttri braut. Allt þetta hefur verið mikilvægt í að byggja nýtt hagkerfi og standa í vegi enn frekari niðurskurðar og skattahækkana,“ segir í Hagsýn riti efnahags- og viðskiptaráðuneytis.

Uppbygging trausts fjármálakerfis forgangsatriði

„Efnahagsáætlun Íslands og AGS hefur falist í endurbótum á meginþáttum hagkerfisins sem urðu fyrir höggi í hruninu. Þar ber meðal annars að nefna heimili og fyrirtæki, sem þurfa á úrvinnslu skulda sinn að halda í kjölfar hruns. Uppbygging trausts fjármálakerfis sem getur sinnt þörfum heimila og fyrirtækja er forgangsatriði og þá þarf jafnframt að taka frekari skref til afnáms gjaldeyrishafta og mótun peningastefnu til framtíðar. Loks hefur áætlunin snúið að fjárhagslegri stöðu ríkissjóðs og hins opinbera, sem fékk mikið högg við hrun.

Stórt skref var stigið hvað varðar seinasta þáttinn með afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2011. Þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir sem nema um 2¼% af þjóðarframleiðslu hefur tekist að verja útgjöld til velferðarmála, sem hafa aldrei verið hærri sem hlutfall af landsframleiðslu en nú. Stjórnvöld og starfsfólk sjóðsins sammæltust um að í ljósi veikari hagvaxtarspár væri svigrúm til að draga úr niðurskurði á fjárlögum, þar sem mildun niðurskurðar væri í samræmi við markmið áætlunarinnar um aukinn hagvöxt og úrvinnslu skulda heimila og fyrirtækja. Með fjárlögunum næst nánast frumjöfnuður, þ.e. jöfnuður á fjárlögum án vaxtagjalda og –tekna, sem hefur ekki verið jákvæður frá því fyrir hrun. Það má teljast verulega góður árangur, aðeins tveimur árum eftir fall bankanna.“

Hagsýn má lesa hér .