Davíð Oddsson sagði á blaðamannafundi í morgun þar sem rökstuðningur Seðlabankans fyrir 25 punkta hækkun vaxta var kynntur að ákvörðun bankastjórnarinnar nú bæri að skoða í ljósi greiningar bankans sem kom fram í síðustu útgáfu peningamála. Þar kæmi fram að peningalegt aðhald væri enn ekki orðið nóg til þess að verðbólgumarkmið bankans næðist á næstu tveimur árum og því væri aukið aðhald æskilegt enn um sinn.

Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi í byrjun nóvember var ákveðið að bíða með að hækka vexti enn þar til að frekari upplýsingar um horfur í hagkerfinu kæmu fram. Þessar tölur eru nú komnar fram og gefa ekki nægilega skýrar vísbendingar um að verðbólguþrýstingur hafði hjaðnað nægilega til þess að tilefni gefist að slaka á í aðhaldi bankans. Í rökstuðningi sínum vísaði Davíð í að þrátt fyrir að verðbólga hefði hjaðnað frá því að Seðlabankinn birti spá sína væru verðbólguhorfur til lengri tíma enn slæmar og langt yfir markmiði bankans. Þá væri ekki hægt að horfa framhjá þeim áhrifum sem fyrirhuguð lækkun neysluskatta mun hafa á fyrri hluta næsta árs. Auk þess hefur komið í ljós að einkaneysla kunni jafnvel að vaxa hraðar á yfirstandandi ársfjórðungi en þeim þriðja, enn sé spenna á launamarkaði og viðskiptahallinn sló enn eitt metið á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Aðspurður sagði Davíð að ekki væri hægt að útiloka frekari vaxtahækkanir. "Seðlabankinn mun fylgjast vel með gangi mála í hagkerfinu þar til að næsta vaxtaákvörðunardegi kemur þann áttunda febrúar næstkomandi. Við getum ekki sagt að þetta verði síðasta vaxtahækkun bankans," sagði Davíð á fundinum.

Aðspurður hvort að aðhald stjórnvalda í ríkisfjármálum hafi verið nægjanlegt á síðustu misserum sagði Davíð að vissulega hefðu aðhaldsamari fjárlög verið hjálpleg."Það er ljóst að ef aðhald er minna á einum stað þá þarf aðhald að vaxa annars staðar að sama skapi," sagði Davíð.