Portúgal tók við formennsku Evrópusambandsins í gær og mun gegna stöðunni út árið. Meðal stærstu áherslumála verður að leiða ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins um nýjan sáttmála, þá verður áhersla lögð á að bæta samstarf sambandsins við Afríkuríkin, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Jose Socrates, forsætisráðherra Portúgals, hóf formennskutíðina á því að fljúga rakleiðis til Afríku, sem þykir skýr merki um að hann hafi einbeittan vilja til að styrkja pólitísk og efnahagsleg tengsl þar á milli. Ofarlega á stefnuskránni verða þróunarmál, málefni ólöglegra innflytjenda frá Afríku og efnahagssamstarf. Socrates hyggst halda ráðstefnu í Lissabon í desember milli Evrópusambandsríka og Afríkuríkja, en það er fyrsta slíka ráðstefnan sem haldin er í sjö ár.

Socrates fékk á sig gagnrýni í gær þegar hann neitaði að meina Robert Mugabe, forseta Zimbabwe, um aðgöngu. Glenys Kinnock, fulltrúi Verkamannaflokks Bretlands á Evrópuþinginu, segir að ráðstefnan gefi Mugabe færi á að spígspora um með bros á vör á meðan þegnar hans þjáist heima fyrir. Socrates segir á móti að nauðsynlegt sé að koma á viðræðum við álfuna í heild sinni og að finna verði heildarlausn um samskipti þeirra á milli.

Viðhorf Evrópusambandsins til álfunnar hefur tekið miklum breytingum að undanförnu. Í síðustu viku kynnti Evrópusambandið skýrslu um að um samvinnu jafningja væri að ræða. Þessi breytta stefna kemur í kjölfar aukinnar starfsemi Kínverja í álfunni og aukinnar samkeppni um náttúruauðlindir sem þar er að finna, segir í fréttinni.