Á þriðja tug fulltrúa frá norrænum sveitarfélögum sitja stjórnarfund norræna samstarfsverkefnisins Nordiske Træbyer í Gistihúsinu Egilsstöðum dagana 16. og 17. september. Það eru sveitarfélög bæjanna Karleby í Finnlandi, Vejle og Skagen í Danmörku, Þrándheims í Noregi, Sundsvall og Växjö í Svíþjóð og Egilsstaða á Íslandi, sem standa saman að verkefninu Nordiske Træbyer.

Á fundinum verður, auk vinnu við verkefnið, kynning á skipulagsmálum og arkitektúr á Íslandi og kynning á skipulagningu skógræktar. Fundargestir fara einnig í skoðunarferð um Hérað og Seyðisfjörð og kynna sér náttúru, arkitektúr og skipulagsmál á svæðinu.

Verkefnið Nordiske Træbyer stuðlar að þróun þéttbýlis sem byggir á timbri og timburbyggingum en þessi sveitarfélög telja það eftirsóknarvert að notkun timburs og trjávöru fái stærri sess í bæjunum. Rökin eru meðal annars að timbur er byggingarefni sem endurnýjast stöðugt, það er aukin eftirspurn eftir timburhúsum vegna jákvæðra umhverfisþátta, trjávara sem notuð er til bygginga og mannvirkja krefst minni orkunotkunar en önnur byggingarefni, timbur er efni sem bindur CO2 og því er notkun þess jákvætt framlag til ákvæða Kyoto-sáttmálans, bæjarhlutar og hverfi með nútíma tréarkitektúr geta boðið upp á meiri fjölbreytni, timburhúsabyggingar geta í dag keppt í verði við byggingar úr öðrum byggingarefnum og hafa að auki mikla þróunarmöguleika hvað hagkvæmni varðar

Samstarfssveitarfélögin fimm stefna að því að timbur verði í auknum mæli notað við byggingu einbýlis- og fjölbýlishúsa, atvinnuhúsnæðis, stofnana á vegum sveitarfélagsins, skóla, sjúkra- og umönnunarstofnana, mannvirkja, o.m.fl. Stefnt er að því að í hverjum bæjanna verði reistar byggingar úr timbri þar sem látið verður reyna á nýjar hugmyndir og aðferðir, tæknilega, fjárhagslega og fagurfræðilega, m.a. í samstarfi við íbúana.

Verkefni sem fyrir valinu hafa orðið eru m.a. Moderna Trästaden í Karleby, Svartlamoen hverfið í Þrándheimi, Moderna Trästaden í Växjö, Nørreskovparken í Vejle, Inra Hamn í Sundsvall og Toldergården í Skagen. Verið er að vinna að mótun verkefnis á Egilsstöðum þar sem stefnt er að myndun samstarfsvettvangs þeirra sem koma úr þessum áttum, skógræktenda, byggingaverktaka, rannsóknaraðila, arkitekta og skipuleggjenda.

Í stað þess að vinna hvert fyrir sig, hafa þessi norrænu sveitarfélög ákveðið að starfa saman á þessu sviði og er það einkum gert í þeim tilgangi að ná sem mestum margfeldisáhrifum af verkefnunum. Með því verður til sameiginlegur reynslu- og þekkingargrunnur sem nýtist þeim sjálfum og getur að auki orðið upphafið að víðtækari rannsóknar- og þróunarverkefnum. Auk sveitarfélaganna eru byggingaraðilar, byggingarvöruframleiðendur, hönnuðir og opinberar stofnanir þátttakendur í verkefninu. Verkefnið mun hafa tengsl við háskóla og rannsóknarstofnanir en það hefur hlotið stuðning frá Norræna fjárfestingasjóðnum og verið er að vinna að frekari fjármögnun.