Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas tekur að eigin sögn stærstu og afkastamestu malbikunarstöð landsins formlega í notkun næsta laugardag á nýju iðnaðarsvæði Hafnfirðinga í Kapelluhrauni. Stöðin, sem verið hefur í rekstri í sumar, getur framleitt 240 tonn af malbiki á klukkustund.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar kemur fram að stöðin kemur frá danska framleiðandanum KVM og byggir á nýjustu tækni við malbikunarframleiðslu þar sem lögð er áhersla á umhverfisvernd og endurvinnslu.

Með nútímabúnaði þarf verksmiðjan til að mynda 25% minni orku en eldri tækni við framleiðsluna auk þess sem hreinsibúnaður skilar útblæstri nánast rykfríum og uppfyllir ströngustu útblásturslöggjöf í Evrópu.

Þá kemur fram að fullkominn blöndunarbúnaður veiti jafnframt möguleika á endurvinnslu á eldra malbiki í stórum stíl. Með íblöndunar- og bindiefnum getur stöðin framleitt malbik við lægra hitastig en áður og gert Hlaðbæ-Colas kleift að bjóða nýjar tegundir malbiks á borð við litað malbik, trefjamalbik og lághitamalbik.

„Nýja stöðin er bylting í okkar starfsemi og sannarlega hægt að segja að með henni tökum við risaskref inn í 21. öldina. Nú getum við annað eftirspurn mun betur en áður, sparað orku við framleiðsluna og lágmarkað umhverfisáhrifin, sem skiptir að sjálfsögðu verulegu máli,“ segir Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hlaðbæjar-Colas í tilkynningunni.

Í tilefni tímamótanna verður opið hús hjá Hlaðbæ-Colas laugardaginn 30. ágúst og eru allir Hafnfirðingar og aðrir velunnarar boðnir velkomnir í höfuðstöðvar félagsins að Gullhellu 1 milli kl. 14 og 17.

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, mun taka nýju malbikunarstöðina formlega í notkun með því að framleiða nokkur tonn af malbiki kl. 14:30, auk þess sem ýmislegt annað verður í boði, svo sem veitingar, tækjasýningar og kvartmílusýning.