Útlit er fyrir miklar breytingar á eignarhaldi stóru bankanna þriggja á næstu misserum. Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir ýmsar breytingar munu eiga sér stað á rekstri bankanna þegar nýir eigendur komi að þeim. Bankarnir muni til að mynda vilja hafa minna eigið fé til að auka arðsemina og munu þurfa að greiða eigendum sínum arð.

„Íslenska bankakerfið var allt of stórt áður en íslenska bankaútrásin byrjaði,“ segir Ásgeir. „Ef útrásin hefði ekki átt sér stað hefðu bankarnir væntanlega þurft að ná hagræðingu með því að skera niður. En í stað þess var sú leið farin að fara út í vöxt eftir einkavæðingu.

Það er mjög líklegt að þegar bankarnir verði einkavæddir núna, þá verði áherslan gerólík. Áhersla nýrra eigenda núna verður ekki á vöxt heldur hagkvæmni, og þá frekar að reyna að tálga bankana niður,“ segir hann.

Mannaflaþörfin hefur breyst

Ásgeir segir ýmis tækifæri vera til staðar til að ná aukinni hagkvæmni í bankakerfinu. Með samruna stærstu sparisjóðanna við hina viðskiptabankana hafi útibúanetum fækkað úr fjórum í þrjú og að í því hafi falist hagræðing, þar sem starfsfólki bankanna hafi ekki fjölgað við samrunana heldur fækkað ef eitthvað er. Í öðru lagi hafi orðið miklar breytingar í tækni, sem bankarnir þurfi að halda áfram að bregðast við.

„Það hefur náttúrulega breyst rosalega mikið mannaflaþörfin í nútíma banka. Það er miklu minni afgreiðsla og miklu meiri ráðgjöf,“ segir Ásgeir .

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .