Nova og Liv Bergþórsdóttir forstjóri fyrirtækisins eru handhafar Viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins árið 2015. Nova var stofnað árið 2006 og opnaði þjónustu sína formlega 1. desember árið 2007 og fagnaði því nýlega átta ára afmælinu. Tvö fyrirtæki voru ráðandi á markaðnum þegar Nova hóf starfsemi en Liv segir að það hafi verið ljóst strax í upphafi að fyrirtækið þurfti að vaxa hratt og ná a.m.k. um 20% markaðshlutdeild til að borga upp þá fjárfestingu sem það lagði út í við uppbyggingu 3G kerfis.

„Salan fór vissulega rólega af stað og við þurftum að hafa mikið fyrir hverjum einasta viðskiptavini,“ segir Liv. „Það tókst þó að ná sölunni á flug og við sóttum um 30.000 nýja viðskiptavini á fyrsta heila rekstrarárinu 2008 og aðra 30.000 árið 2009. Við höfum síðan vaxið jafnt og þétt ár frá ári.

Í dag er Nova annað stærsta farsímafélagið á Íslandi með um 140.000 virk farsímanúmer og um 33% markaðshlutdeild í fjölda viðskiptavina. Síminn er ennþá stærsta farsímafélagið með um 35% hlutdeild og Vodafone um 27%. „Það hefur ekki verið markmið í sjálfu sér að verða stærst og hvort við förum upp fyrir Símann í markaðshlutdeild á næsta ári verður tíminn bara að leiða í ljós, það er ómögulegt að segja,“ segir Liv.

Einföld markmiðasetning

Liv segir að starfsmenn Nova hafi frá fyrsta degi lagt áherslu á litla yfirbyggingu og sjálfvirkni en í dag eru þeir um 150 talsins. „Við vinnum eftir einfaldri markmiðasetningu og settum okkur fjögur markmið árið 2007 sem við vinnum enn eftir,“ segir hún.

„Markmiðin eru alltaf þau sömu en leiðin að þeim getur verið mjög breytileg milli ára. Við viljum vera besti vinnustaður í heimi, eiga ánægðustu viðskiptavinina, skapa öflugt og sterkt vörumerki og vera best í netinu.

Undanfarin sex ár höfum við átt ánægðustu viðskiptavinina í farsímaþjónustu og fimm sinnum átt ánægðustu viðskiptavinina á Íslandi skv. Íslensku ánægjuvoginni. Það er stanslaus áskorun að halda þessari stöðu, gera betur í dag en í gær. Það að við höfum átt ánægðustu viðskiptavinina í farsímaþjónustu í fyrra er engin trygging fyrir því að eiga þá á næsta ári, þetta er eilífðarverkefni.

Með því að vera minni, með einfaldara vöruframboð og leggja áherslu á sjálfvirkni í þjónustu þá eigum við líka að geta veitt betri þjónustu en samkeppnin.

Það er eðlilega töluverð starfsmannavelta hjá okkur og þá sérstaklega í þjónustuveri og verslunum þar sem margt ungt fólk starfar. Við rekum Nova skólann og leggjum þar áherslu á þjálfun starfsmanna og að góð þjónusta sé sameiginlegt markmið okkar allra, sama hvar við störfum í fyrirtækinu. Það er engin uppskrift að því hvernig á að veita góða þjónustu eða hvernig á að bregðast við þegar eitthvað fer úrskeiðis, þetta byggir á frumkvæði starfsmanna. Við reynum að styrkja starfsmanninn þannig að hann geti metið það sjálfur og hafi ákvörðunarvald til að gera það sem til þarf. Nova skólinn verður betri með hverju árinu og er í sífelldri mótun.“

Ánægðir viðskiptavinir, ánægt starfsfólk

Liv segir mikilvægt að starfsmenn fyrirtækisins séu ánægðir. „Leiðin að því að eiga ánægðustu viðskiptavinina er að eiga ánægðasta starfsfólkið, það gildir um öll fyrirtæki,“ segir hún. „Árið 2007 réðum við 65 nýja starfsmenn og þá var ekkert atvinnuleysi á Íslandi. Það að stofna nýtt félag við þessar aðstæður krafðist þess að við markaðssettum okkur sem áhugaverðan vinnustað. Sölupunkturinn var að Nova yrði besti vinnustaður í heimi. Það hefur ekkert breyst enda er samkeppnin um gott fólk alltaf til staðar. Þá er stanslaust hægt að vinna að því að gera Nova að enn betri vinnustað.

Nova er frjálslegur vinnustaður með öfluga liðsheild og gleði, en það eru líka miklar kröfur gerðar til fólks um árangur og vinnuálagið er oft mikið. Við vinnum eftir flötu skipulagi og við sem stjórnendur erum nokkuð nálægt framlínunni. Það má alltaf gera betur og það er stanslaus vinna að halda stemmningunni gangandi og tempóinu.“

Þetta er annar hluti af fjórum í Viðtali Viðskiptablaðsins við Liv Bergþórsdóttur. Hægt er að nálgast fyrsta hlutann hér .