„Það er VÍS sem á hug okkar allan í augnablikinu hvað varðar sölu eigna okkar,“ segir Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri Klakka. Í Viðskiptablaðinu í dag var greint frá þeirri ákvörðun Klakka að setja tryggingafélagið VÍS í söluferli, að öllu leyti eða að hluta.

Meðal annarra eigna Klakka eru Skipti, móðurfélag Símans, Mílu, Skjámiðla og fleiri félaga. Greint var frá því í dag að Skipti væru að ráðast í fjárhagslega endurskipulagningu. Magnús segir að komi góð tilboð í aðrar eignir Klakka sé fyrirtækið opið fyrir slíku, en áherslan sé öll á sölu VÍS núna. „Við erum alltaf opin fyrir góðum hugmyndum,“ segir hann.

Í tilkynningu Klakka, sem send var út í gærkvöldi, segir að stefnt sé að því að nýir eigendur geti komið að VÍS á vormánuðum, en Magnús segist ekki geta sagt meira til um tímasetningu á sölunni. Meðal þeirra kosta sem eru til alvarlegrar skoðunar er skráning VÍS á markað í Kauphöllinni. Ef sú leið verður ofan á er líklegt að miðað verði við ársuppgjör VÍS fyrir 2012 í skráningarlýsingu. Þýðir það að skráningin má í raun ekki verða síðar en um mánaðamótin apríl-maí.