Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, tilkynnti í morgun um að hann muni bjóða sig fram til stöðu formanns Samfylkingarinnar. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir hann að stefnuáherslur flokksins séu of þröngt skilgreindar, en hann vill breikka úr þeim.

„Við eigum að vera breiðfylking bæði róttækra jafnaðarmanna og evrópusinnaðra miðjumanna,” segir Helgi. „Samfylkingin á að rúma alls kyns skoðanir, enda er hún lýðræðislegur flokkur.”

Helgi telur að fylgistap Samfylkingarinnar sé komið til vegna þess að stefna flokksins einblíni um of á einstaka hluti, og hann kallar á að hver og einn meðlimur flokksins geti haft bein áhrif á stefnu hans eins og fyrrum var gert.

„Fylgið hefur minnkað um þriðjung og ég tel að það sé vegna þess að áherslur flokksins hafa orðið of skilgreindar,” segir hann. „Við eigum að nota nýjustu tækni til að leyfa fólki að hafa bein áhrif á stefnu flokksins, svipað og Píratar hafa verið að gera.”

Þá vill hann einnig styrkja tengsl flokksins við verkalýðsgrunninn sem hann byggir á. Meðal annars vill hann skoða upptöku verkamannabústaðakerfisins á ný, og hann segir stöðu ungs verkafólks vera ábótavant.

„Mér finnst að Samfylkingin eigi að skerpa á grunngildunum,” segir Helgi. „Þar má helst nefna að lagt hafi verið niður verkamannabústaðakerfið. Ungt fólk sem á ekki pening þarf að taka ævilangt gengisverðtryggt lán eða fara á leigumarkaðinn.”