Fjölgun ferðamanna er ein helsta ástæðan fyrir að hægt er að opna á ný Hard Rock veitingastað á Íslandi segir Styrmir Karlsson, markaðsstjóri Hard Rock Café á Íslandi.

Ferðamannafjölgunin gerir opnunina mögulega

„Það hefði verið erfitt að opna staðinn með 300 til 400 þúsund túrista. Þessi fjölgun ferðamanna er það sem gerir okkur kleift að opna þennan stað,“ segir Styrmir í viðtali við Fréttablaðið.

„Forsvarsmenn Hard Rock eru að opna tvo staði á mánuði út um allan heim, þannig að þetta er spurning um forgangsröðun hjá þeim. Þetta er eins og hjá H&M, ef þeim finnst markaðurinn hér of lítill hafa þeir einfaldlega ekki tíma fyrir hann.“

Segjast ekki vera að opna túristastað

Þó ítrekar Styrmir að ekki sé verið að opna túristastað á Íslandi.

„Við erum að einblína á það að koma með Hard Rock til baka fyrir Íslendinga. Útlendingar geta farið á Hard Rock úti í heimi, en við munum samt njóta góðs af því að þeir komi til okkar,“ segir Styrmir.

„Nýlega var gerð könnun sem sýndi fram á að Hard Rock var eitt af tíu þekktustu vörumerkjum heims, þetta er ekki eitt af stærstu vörumerkjum heims en þetta er eitt af því sem fólk þekkir best. Þú færð því ekki einkaleyfi á Íslandi nema þú uppfyllir vissar kröfur.“

Áheyrnarprufur haldnar í leit að starfsfólki

Styrmir segir Hard Rock muni fylgja verslun og að sérgerðir Hard Rock bolir sem seldir verði í Iðuhúsinu þar sem veitingahúsið verður til húsa muni draga fólk inn. Jafnframt hafi styrkleiki vörumerkisins auðveldað ráðningar nú þegar víða vanti fólk til starfa, en félagið hélt nýlega áheyrnarprufur fyrir væntanlegt starfsfólk.

„Þetta var smá áhætta þar sem þetta hefur ekki verið gert áður á íslandi. En vörumerkið er svo sterkt að við fengum inn þrjú hundruð manns á einum degi og sjötíu manns fengu vinnu. Vörumerkið kemur þarna svo sterkt inn að við náum að manna þessi störf í tvö prósent atvinnuleysi,“ segir Styrmir.

„Við lögðum líka upp með að ná sem flestum þjóðernum og tungumálum. Ég held að við munum á góðum degi hjá okkur hér í Lækjargötunni vera með um tólf þjóðerni og yfir sautján tungumál.“