Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, er ekki með heilsteypta efnahagsstefnu í gangi og honum hefur mistekist að efna loforð sitt sem hann gaf fyrir kosningar um að bæta kjör almennings í landinu. Raunveruleg ákvörðun um kjarnorkuáætlun landins hefur ekki enn verið tekin í íranska valdakerfinu, en þar ríkir innbyrðis barátta um völd og hagsmuni meðal ráðamanna.

Þetta kom meðal annars fram í máli Houchang Chehabi, prófessors við Boston háskóla, á fundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í gær þar sem hann fjallaði um stjórnarfar í íslamska lýðveldinu Íran. Hann velti upp áhrifum kjörs Mahmouds Ahmadinejads í embætti forseta á stefnu íranska ríkisins og kjarnorkuáætlun landsins. Chehabi sagði að þversögn Írans væri sú að kosningar í Íran skipti máli þrátt fyrir að það ríki ekki raunverulegt lýðræði í landinu, en frá byltingunni árið 1979 hefur Íran verið stjórnað af klerkaveldi. Keisarinn hafði aldrei náð stjórn á trúarstofnunum landsins, og því sameinaðist öll stjórnarandstaðan með klerkunum, hvort sem fólk vildi trúarlegt eða frjálsara samfélag. Stjórnarskrá hins nýja íslamska ríkis setti á fót stofnanir sem kosið var til á lýðræðislegan hátt, en leiðtogi byltingarinnar, Ayatollah Khomeini, sagði að það væru ekki allar reglur í Kóraninum, til að mynda umferðarlög, og því væri það mannanna að setja reglur um slíkt. Hins vegar gegndi þingið fljótt mun öflugra hlutverki en Khomeini hafði reiknað með, því lög íslam voru ekki nógu nákvæm fyrir allt það sem gerist í nútíma samfélagi. Því hafa verið til staðar á sama tíma, trúarlegar stofnanir klerkaveldisins og svo lýðræðislegar stofnanir eins og þingið og forsetaembættið.

Engar lausnir
Chehabi segir það vera einkenni þeirra sem kenna sig við pólitískt íslam og eru í stjórnarandstöðu að þeir telji samfélagið ómögulegt vegna þess að það séu ekki þeir og þeirra hugmyndafræði sem ríki, heldur kapítalismi og sósíalismi og afsprengi þeirra. Lausnin sé íslamskt þjóðfélag, en vandamálið er að í Íran hafa þeir verið við völd í nokkurn tíma og hafa ekki sýnt fram á að þeir geti skapað almenningi þau lífsskilyrði sem þeir segja að þeirra leiðir og hugmyndafræði nái fram. Það er því ekki nóg að geta skapað íslamskt samfélag sem byggi á því að konur gangi með slæður og bannað sé að selja áfengi, það verður að skapa grundvallarlífsskilyrði fyrir almenning sem gengur upp - í efnahagsmálum, menntakerfinu og atvinnulífinu.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.