Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, fjallaði ekki bara um kreppur og stjórnmál í erindi sínu á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs í dag. Hann sló einnig á létta strengi og hóf ræðuna á því að segja brandara, sem Davíð Oddsson sagði honum þegar þeir hittust í fyrsta skipti árið 1991.

Davíð hafði nokkru áður hitt Shimon Peres, þáverandi forsætisráðherra Ísraels, og til að brjóta ísinn hafði Peres ákveðið að leggja áherslu á það sem ríkin tvö ættu sameiginlegt. Sagði Peres að það væru einkum þrjú atriði sem sameinuðu Ísland og Ísrael. Bæði væru lítil ríki, bæði hefðu fengið sjálfstæði sitt á fimmta áratugnum og þá byrjuðu nöfn þeirra beggja á stöfunum Í og S. Davíð var ekki viss um hvernig hann ætti að svara þessu en eftir nokkra umhugsun sagðist hann geta þó bent á eitt atriði sem skildi þjóðirnar að. Ísraelar væru, eins og frægt væri, Guðs útvalda þjóð, en Íslendingar væru Guðs frysta þjóð.

Smáauglýsing fyrir Nokia

Eins og aðrir Finnar er Aho mjög annt um velferð símaframleiðandans Nokia. Hann var að ræða um það hvaða nýjungar hann teldi framtíðina bera í skauti sér og sagðist telja að þær myndu fela í sér frekari tengingu hins stafræna heims og hins veraldlega og að snjallsímar væru byrjunin á þessari þróun. Þegar þarna var komið sögu lyfti hann gulum síma. „Eins og Nokia Lumia síminn minn, sem er reyndar afbragðs góður sími.“