Áhöfnin á Goðafossi, skipi Eimskipafélags Íslands, var í gær heiðruð fyrir hetjulega framgöngu við björgunarstörf þegar eldur kom upp í skipinu 11. nóvember síðastliðinn. Öguð vinnubrögð og snarræði áhafnarinnar skipti sköpum um að hvorki urðu slys á mönnum né alvarlegt tjón á skipinu.

Goðafoss var staðsett um 70 sjómílur vestur af Færeyjum á leið til Íslands þegar eldurinn kom upp um klukkan 4 að nóttu en þá var vonskuveður. Þrettán manns voru í áhöfn skipsins auk þriggja farþega og sluppu allir heilir á húfi. Áhöfnin náði að ráða niðurlögum eldsins.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, veitti áhöfninni sérstaka viðurkenningu í gær. ,,Áhöfnin vann hetjusamlegt björgunarstarf við mjög erfiðar aðstæður. Enn á ný sannaðist að þjálfun og menntun íslenskra sjómanna skiptir gríðarlegu máli. Við verðum að tryggja að sú menntun  verði áfram með þeirri bestu sem gerist í heiminum,“ sagði Gylfi.