Pew-stofnunin bandaríska rannsakar fjölmiðlaneyslu vestanhafs með reglulegum hætti, en samkvæmt síðustu könnun er neyslumynstrið enn að breytast.

Sem fyrr er netið enn að sækja á, en ekki þó á öllum vígstöðvum. Stórt séð má segja að valið standi milli þess að lesa fréttir eða horfa/hlusta á þær. Æ fleiri Bandaríkjamenn kjósa að lesa fréttir á netinu á kostnað prentmiðla.

Eftir sem áður vilja þeir langflestir horfa á þær og þar hefur sjónvarpið vinninginn á fréttaræmur á netinu. Sömuleiðis er athyglisvert að hljóðvarp er í töluverðri sókn á sama tíma og hlaðvarpi á netinu vex ásmegin.