Stjörnuleikur NBA deildarinnar tapaði sjónvarpseinvígi við Óskarsverðlaunin. Engu að síður þarf NBA deildin ekki að skammast sín. Áhorf á deildarleiki hefur ekki mælst meira síðan Michael Jordan leiddi lið Chicago Bulls. Nýjar stjörnur draga nú vagninn.

Aukið áhorf er ekki síst að þakka mönnum eins og Chris Paul og Jeremy Lin, ferskustu stjörnu deildarinnar. Um 74% fleiri horfðu á fyrstu 34 deildarleikina í vetur en í fyrra. Nýtt met var slegið þegar Chris Paul og félagar hans í Los Angeles Clippers léku gegn Lakers þann 14. janúar. Aldrei hafa fleiri horft á deildarleik í NBA deildinni og sjónvarpsáhorfendur í Bandaríkjunum voru alls 756 þúsund talsins.

Pistlahöfundur Forbes tímaritsins fjallaði nýverið um málið og bendir á að þrír af fimm vinsælustu leikjum allra tíma voru spilaðir á yfirstandandi tímabili. Los Angeles Clippers, með skemmtikrafta á borð við Paul og Blake Griffin í fararbroddi, var annað liðið í öllum þremur leikjunum.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.