Þótt hin svokallaða 50/50 leið Seðlabankans hafi reynst drjúg til þess að afla gjaldeyris til að selja aflandskrónueigendum sem vilja losa krónueignir sínar eru áhrif hennar á gengi krónu og innlenda markaði nokkuð tvíbent að mati Greiningar Íslandsbanka. Í Morgunkorni Greiningarinnar er vísað í frétt Seðlabankans í kjölfar gjaldeyrisútboðsins í desember síðastliðnum en þar kom fram að 48% krónanna sem komu inn í gegn um þessa leið varið til hlutabréfakaupa, 38% fóru til skuldabréfakaupa, 13% til fasteignakaupa og 1% til kaupa í verðbréfasjóðum.

Greiningin telur líklegt að talsverður hluti þessarar fjárhæðar hefði komið til landsins þótt útboðin hefðu ekki verið haldin. Virðist sem helsti tilgangur 50/50 leiðarinnar, að laða erlenda fjárfesta hingað til lands sem ella hefðu leitað annað, hafi ekki gengið eftir nema að takmörkuðu leyti.

Gætu hafa haft neikvæð áhrif á krónuna

„Nærtækast er að benda á fasteignakaupin. Af umfjöllun fjölmiðla má ráða að þar sé að talsverðu leyti um að ræða Íslendinga með gjaldeyriseignir sem nýta sér útboðin til þess að fá óbeint afslátt af fasteignakaupum hérlendis. Samkvæmt tölum Seðlabanka nema fasteignakaup tengd 50/50 leiðinni tæplega 10 mö.kr., og því um verulega fjárhæð að ræða. Nemur hún til að mynda u.þ.b. 5% af heildarveltu á íbúðamarkaði í fyrra, þótt raunar liggi ekki fyrir hversu mikið af þessari upphæð rann til kaupa á atvinnuhúsnæði.

Hugsanlegt er að talsverður hluti þess fjár sem komið hefur til kaupa á hlutabréfum og skuldabréfum hefði ella komið að fullu inn í gegn um innlendan gjaldeyrismarkað, til dæmis vegna fjármögnunar innlendra fyrirtækja með erlendar eignir og/eða tekjur. Ef sú er raunin hafa gjaldeyrisútboð Seðlabankans dregið úr slíku innflæði gjaldeyris á almennum markaði, og haft að þessu leytinu neikvæð áhrif á gengi krónu. Þó er erfitt að festa fingur á því hvort vegur þyngra, nýtt innflæði vegna fjárfestinga í 50/50 leið sem ella hefðu ekki orðið eða minna innflæði vegna þess að verið er að nýta leiðina fyrir fjármagn sem annars hefði komið inn á almennum gjaldeyrismarkaði,“ segir í Morgunkorninu.