Markaðir virðast ekki hafa áhyggjur af mögulegu gosi í Kötlu eða Heklu, en í gær bárust fréttir af töluverðum óróa í Kötlu. Veðurstofan tilkynnti svo í morgun að skjálftahrinan hefði ekki verið jafnöflug og talið í fyrstu.

Verð hækkar á mörkuðum

Verð hlutabréfa Icelandair hafa hækkað á mörkuðum í morgun, um 1,53%, en aðspurður tók Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair undir að áhrif gosösku á flughreyfla hefði verið ofmetið.

„Það er náttúrulega mikið búið að rannsaka áhrif öskugosa á flug eftir Eyjafjallagosið og það liggur alveg fyrir að afleiðingarnar af álíka gosi yrðu allt aðrar og miklu minni í dag heldur en var þá því í dag hafa menn betri upplýsingar,“ sagði Guðjón við Viðskiptablaðið.

„Við erum reynslunni ríkari eftir Eyjafjallajökulsgosið, og fylgjumst með svona fréttum af eðlilegum áhuga. Við erum ekki að grípa til neinna sérstakra ráðstafana núna.“