Áhrif launahækkana á verðbólgu hefur verið minni en Seðlabankinn spáði í febrúar og gengi krónunnar hærra. Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði á vaxtaákvörðunarfundi í dag mikla óvissu snúa um þessa þætti.

Fram kemur í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem birt var samhliða vaxtaákvörðun Seðlabankans í morgun að verðbólga hafi verið við markmið síðustu mánuði og því spáð að hún verði á þeim slóðum fram á næsta ár þegar hún eykst vegna framleiðsluspennu. Þá hafi verðbólguvæntingar til skamms tíma lækkað að undanförnu í takt við hjöðnun verðbólgu en verðbólguvæntingar til langs tíma sé enn nokkuð yfir markmiði.

Þá segir í yfirlýsingunni að hjöðnun verðbólgu og verðbólguvæntingar feli í sér að raunvextir bankans hafi hækkað þó nokkuð það sem af er árinu. Slakinn í taumhaldi peningastefnunnar sé því líklega horfinn.

Þórarinn sagði óvissuna nokkra, ekki síst hvað snerti einkaneyslu en hún geti orðið veikari en talið er verði aðgengi heimila að verðtryggðum lánum takmörkuð.