Vaxandi atvinnuleysi hefur víða áhrif, meðal annars þau að færri koma nú við á McDonald‘s til að kaupa sér morgunmat.

Í gærkvöldi hafði Reuters fréttastofan eftir Jim Skinner, forstjóra McDonalds að með auknu atvinnuleysi hefði sala á morgunmat lækkað nokkuð en í áratugi hefur McDonalds selt morgunmat eingöngu fram eftir morgni.

„Þetta fer eftir markaðsaðstæðum,“ segir Skinner.

„Þar sem atvinnuleysi hefur aukist eru færri á ferðinni á morgnana og þar hefur salan minnkað. Atvinnuleysi hefur sveiflast lítillega síðustu misseri en salan á morgunmat sveiflast í takt við það.“

Atvinnuleysi vestanhafs mælist nú tæp 10% og hefur ekki verið hærra rúm 20 ár. Sala McDonalds á morgunmat vegur um 25% af allri sölu félagsins í Bandaríkjunum þannig að félaginu munar um minna ef salan dettur mikið niður.