Michael Nevin hefur verið sendiherra Bretlands á Íslandi frá 2016 og lauk hefðbundnu skipunartímabili sínu í fyrra, en mun gegna embættinu út ágúst næstkomandi vegna þeirra miklu verkefna sem liggja nú fyrir höndum vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, betur þekktu sem Brexit.

Hann segir útgönguna hafa verið langt ferðalag, og telur báða aðila samningsins milli Bretlands og ESB, sem náðist á aðfangadag, hafa gengið þokkalega sátta frá borði.

Nevin segir óhjákvæmilegt að sú mikla breyting að tilheyra ekki lengur tollabandalagi og innri markaði Evrópu hafi áhrif á breskt atvinnulíf til skamms tíma. „Að sjálfsögðu munu hlutir breytast. Það verða byrjunarörðugleikar fyrstu mánuðina, hjá því verður ekki komist. Breska þjóðin og atvinnulífið munu þurfa að aðlagast veruleika sem hefur ekki þekkst hér í áratugi.“

Skammtímaraskið muni þó líða tiltölulega hratt hjá, en allt að áratug muni að hans sögn geta tekið fyrir áhrif útgöngunnar að koma að fullu fram á breskt samfélag.

Vilja bæta verulega í rannsóknir og þróun
Meðal þess sem bresk stjórnvöld hafa einsett sér eftir útgönguna er aukin áhersla á rannsóknir og þróun. „Framtíð atvinnustarfsemi liggur í tækniþróun á borð við gervigreind, og Bretland ætlar sér stóra hluti á því sviði.“ Stefnt verði að því að árið 2027 verði 2,4% vergrar landsframleiðslu varið til rannsókna og þróunar. „Það er mun hærra markmið en við höfðum fyrir útgöngu.“

Nevin bendir á að auknu frelsi og völdum breskra yfirvalda í kjölfar Brexit fylgi einnig aukin ábyrgð. „Við erum ekki í Evrópusambandinu lengur og eykur það ábyrgðarskyldu breskra stjórnvalda. Stjórnvöld munu nú svara beint fyrir stefnu sína og aðgerðir.“

Nánar er rætt við Nevin í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .