*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 29. apríl 2020 19:42

Áhrif faraldursins bæði góð og slæm

Sala dagvöru og raftækja hjá Festi hefur aukist vegna faraldursins, en eldsneytis- og skyndibitasala dregist saman.

Júlíus Þór Halldórsson
Eggert Þór Kristófersson er forstjóri Festis.

Tekjur og hagnaður Festis jukust lítillega á fyrsta ársfjórðungi milli ára. Sölutekjur námu 18,9 milljörðum samanborið við 18,2 á síðasta ári, framlegð 4,3 samanborið við 4,2, og hagnaður 53 milljónum í stað 52. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins.

Rekstrarkostnaður jókst nokkuð, úr 2,9 milljörðum í 3,3 eða um tæp 14%. Launakostnaður hækkaði um 110 milljónir, rekstrarkostnaður fasteigna um 50, og fjarskiptakostnaður um 43 milljónir eða 45%. Greidd laun jukust um 5,6% í 1,8 milljarða.

Heildareignir námu 81 milljarði og lækkuðu lítillega, eigið fé nam 28,3 milljörðum og dróst einnig lítillega saman, og var eiginfjárhlutfall því svo til óbreytt í 35%.

Í skýrslu stjórnar segir að áhrif faraldursins á reksturinn sé beggja blands. Í aðra röndina hafi sala dagvöru og raftækja aukist, en á hinn bóginn hafi sala eldsneytis og skyndibita og annarrar hressingar dregist saman.

Þá dró fallandi olíuverð þónokkuð úr framlegð af sölu eldsneytis, sem fór úr rétt tæpum milljarði í 680 milljónir milli ára.

Stikkorð: Festi