„Í stuttu máli má segja að móttaka flóttamanna í stórum stíl væri stórt og ærið verkefni sem mun verða kostnaðarsamt og krefjast samvinnu margra. Til lengri tíma virðast þó áhrifin vera jákvæð fyrir efnahagslífið.“

Þetta kemur fram í nýrri umfjöllun greiningardeildar Arion banka um efnahagsleg áhrif þess að tekið væri á móti flóttamönnum hér á landi. Þar segir að staða flóttamanna sé fyrst og fremst mannúðarmál og þröngt efnahagslegt sjónarhorn verði aldrei ráðandi þáttur í ákvarðanatöku um móttöku þeirra. Engu að síður sé áhugavert og mikilvægt að skoða hver efnahagslegu áhrifin geti verið af mótttöku flóttamanna.

„Fyrst um sinn fylgir komu hóps flóttamanna eðlilega talsverður kostnaður. Við getum t.d. byrjað á kostnaði við ferðalagið til Íslands. Þá á eftir að taka á móti fólkinu, útvega húsaskjól, koma börnum í skóla og veita ýmiss konar stuðning. Til lengri tíma er hins vegar um að ræða nýja íbúa í landinu sem eftir atvikum skila verðmætum til þjóðarbúsins líkt og aðrir íbúar landsins,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.

Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni hér.