Flutningur Íslendinga úr landi, umfram spár stjórnvalda, muni leiða til þess að ríkið fái minni skatttekjur en reiknað var með. Tölur um það liggja þó ekki fyrir enn, samkvæmt upplýsingum frá Þórhalli Arasyni í fjármálaráðuneytinu. Á næstunni munu koma fram tölur um skatttekjur í janúar á þessu ári sem sýna munu áhrifin af skattahækkunum sem tóku gildi um áramótin.

„Á þeim getum við séð hvernig áhrifin koma fram í þessum tiltekna mánuði. En það verður að fara varlega í að draga meiri ályktanir en það,“ segir Þórhallur. Heildarskatttekjur ríkissjóðs á þessu ári eru áætlaðar 461 milljarður. Hvert prósent til eða frá nemur því um 4,6 milljörðum króna.

Brottflutningurinn frá landinu, umfram aðflutta, í fyrra nemur um 1,5% af heildarfjölda landsmanna það árið. Spá Seðlabanka Íslands fyrir árið í fyrra gerði ráð fyrir fækkun upp á 0,5% samkvæmt upplýsingum frá Þórarni G. Péturssyni, aðalhagfræðingi bankans. Samkvæmt spá Seðlabankans var gert ráð fyrir að samdrátturinn yrði mestur á þessu ári sem síðan myndi leiða til meiri búferlaflutninga á árinu.