Áhrif dóms Hæstaréttar frá því 15. febrúar síðastliðinn geta mest leitt til 165 milljarða króna afskrifta hjá fjármálastofnunum. Fjármálaeftirlitið birti í dag samantekt á mögulegum áhrifum dómsins en fjármálastofnanir voru beðnar um að taka saman gögn um afskriftir eftir fjórum sviðsmyndum. Sé litið til þeirra lána sem falla undir dóminn eða eru afar líkleg til þess nema afskriftir um 85 milljörðum.

Fjármálaeftirlitið tekur fram að sviðsmyndirnar eru mótaðar af stofnuninni og fela ekki í sér afstöðu lánastofnana til áhrifa umrædds dóms eða forskrift um hvernig þeim ber að haga endurreikningi gengislána gagnvart hverjum og einum viðskiptamanni. Miðað er við sviðsmynd tvö. Það er mat FME að sú sviðsmynd sé í mestu samræmi við forsendur dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar sl. Munur á sviðsmyndunum fjórum er aðeins 10%.

Í minnisblaði FME eru lán flokkuð frá B til F. Í flokki F eru lán sem lánastofnanir hafa annaðhvort viðurkennt að feli í sér ólögmæta gengistryggingu eða verulegar líkur eru á aðverði talin fela í sér ólögmæta gengistryggingu. Afskriftir vegna þeirra eru metnar á um 85,6 milljarða króna. Lánastofnanir hafa þegar afskrifað um 70,5 milljarða.

Meiri óvissa ríkir um hina flokkana. Ef dómurinn nær hins vegar til þeirra, bæði til einstaklinga og lögaðila, þá nema heildarafskriftir um 165 milljörðum króna.

Í samandreginni niðurstöðu FME segir að mat stofnunarinnar sé að áhrif dómsins frá 15. febrúar og endurreikningar vegna hans ógni ekki fjármálastöðugleika. „Fjármálaeftirlitið áréttar þó að öll óvissa vegna uppgjörs gengislána er vissulega slæm fyrir fjármálakerfið og mikilvægt er að henni verði brátt eytt. Mun Fjármálaeftirlitið áfram fylgjast náið með framvindu þessara mála.“

Minnisblað FME .