Versta mögulega afleiðing lausafjárkrísunnar á mörkuðum heimsins er að hagnaður eins árs tapist hjá viðkomandi bönkum. Staða bankageirans er sterk og áhrifin af lausafjárkrísunni eru ofmetin. Þetta hefur Børsen eftir sérfræðingi á bankamarkaði, Bjarne Jensen, forstjóra ráðgjafarfyrirtækisins Bjarne Jensen Consult.

Bjarne Jensen segir að jafnvel í versta hugsanlega tilviki geti tapið rúmast innan hagnaðar ársins, en eigið féð geti áfram staðið sterkt. Þetta hljóti að teljast gott í erfiðu ári og Jensen telur að umfjöllun fjölmiðla um lausafjárkrísuna og undirmálslánavandann hafi verið á of neikvæðum nótum.

Útreikningar Jensen sýna að samkvæmt svartsýnasta mati verði tap bankanna 250 milljarðar danskra króna, um 3000 milljarðar íslenskra króna. Þetta samsvari hagnaði 330 bandarískra banka sem séu inni í reiknilíkaninu.