Hraði hefur lækkað eftir uppsetningu löggæslumyndavéla á Sandgerðisvegi sem settar voru upp árið 2008. Mælingar voru gerðar árið 2010 en greint er frá þeim í nýjasta fréttabréfi Vegagerðarinnar. Niðurstöður mælinganna sem VSÓ ráðgjöf gerði sýna að þótt hraðinn hafi lækkað frá uppsetningu vélanna séu áhrifin nokkuð staðbundin. Meðalhraði er hár áður en komið er að myndavél, lækkar við myndavélina og helst svo nokkuð stöðugur í kílómetra frá myndavél en eykst svo aftur. Stungið er upp á því að setja upp fleiri myndavélakassa við veginn en skiptast á að hafa myndavél í þeim, þannig að lengja megi áhrifasvið myndavélanna.