Í nýrri skýrslu Njósna- og öryggismálanefndar breska þingsins (ISC) um afskipti Rússa í breskum stjórnmálum kemur fram að áhrif frá Moskvu sé „nýja normið“ og að háttsettir aðilar innan Kremlin hafi góðan aðgang að leiðtogum atvinnulífsins og þingsins. Financial Times segir frá .

ISC ályktar að ríkisstjórnir Bretlands hafi „tekið olígarka og peninga þeirra með opnum örmum, veitt þeim úrræði til að þvo ólöglegt fjármagn í gegnum London ‚þvottahúsið‘ og hjálpað þeim að mynda tengsl á hæstu stigum“.

Skýrslan var tilbúin fyrir tíu mánuðum en útgáfa hennar frestaðist vegna þingkosninganna á síðasta ári. Sumir þingmenn ásökuðu Boris Johnson forsætisráðherra um að hafa viljandi setið á henni.

Níu þingmenn nefndarinnar eru gagnrýnir á bresku leyniþjónusturnar fyrir að hafa ekki verndað lýðræðisferli Bretlands frá afskiptum Moskvu. Í skýrslunni segir að þrátt fyrir margar opinberar skýrslur um tilraunir Rússa til að hafa áhrif á þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands árið 2014 og Brexit kosningarnar árið 2016 þá hafi leyniþjónusturnar verið tregar til að skerast í leikinn.

„Verndun lýðræðisferilsins virðist vera vandræðamál (e. hot potato), þar sem engin ein stofnun virðist vera í fararbroddi eða tilbúin til að leggja mat á erlend afskipti. Þetta verður að breytast,“ er haft eftir þingmönnunum í nefndinni.

Skýrslan er einnig gagnrýnin á samfélagsmiðla sem eru sagðir ekki hafa spilað sitt hlutverk í að tækla notkun fjandsamlegra ríkja á vettvöngunum. Jafnframt er kallað eftir því að ríkisstjórnin „nefni og smáni“ þau fyrirtæki sem mistakist að fjarlægja rangfærslur.

Nefndin segir einnig að nýr breskur iðnaður af lögfræðingum, endurskoðendum og fasteignasölum vinni „vísvitandi eða óviljandi“ sem de facto útsendarar rússneska ríkisins.