Með sameiningu Seðlabankans og FME var stefnt að því að bæta yfirsýn og ákvörðunartöku vegna kerfisáhættu og þjóðhagsvarúðar. Jafnframt var horft til þess að kalla fram ýmis samlegðaráhrif og koma í veg fyrir óþarfa skörun verkefna, auk þess sem frekari samþætting myndi efla viðbúnað fyrir áföll í framtíðinni. Tvær nefndir hafa skilað skýrslu um málið og kemur þar fram að vel hafi tekist til við sameininguna.

Þó var bent á ýmis atriði sem mætti bæta úr, til að mynda þeim sem snúa að verkaskiptingu og skilgreiningu verkefna. Þá þyrfti að meta þyrfti nýja nefndaskipan í ljósi reynslunnar og ástæða væri til að endurskoða umboð fjármálaeftirlitsnefndar. Í janúar lagði óháð úttektarnefnd fram 17 tillögur er varða peningastefnu, fjármálastöðugleika, fjármálaeftirlit og stjórnarhætti.

Frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands er nú til umræðu á þinginu og er því ætlað að bregðast við hluta þeirra ábendinga sem fram hafa komið. Annarri umræðu um frumvarpið lauk síðastliðinn miðvikudag og bíður þriðju umræðu.

Seðlabankastjóri sagði á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á dögunum að skipulag bankans væri í stöðugri endurskoðun en það hafi verið kappsmál að koma þessum stofnunum saman á sínum tíma. Það væri ekki ólíklegt að málið verði skoðað upp á nýtt eftir 2-3 ár, jafnvel með skrefi til baka í áttina að því að gera eftirlitið sjálfstæðara. Unnið væri að því að bregðast við ábendingum og umbótatillögum.

Nánar er fjallað um sameiningu Seðlabankans og FME í Viðskiptablaðinu, sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.