Langvarandi áhrifa hitabylgju sem gengið hefur yfir Evrópu í sumar er farið að gæta víða í álfunni.

Yfirborð Po fljótsins sem er lengsta og mikilvægasta flutningsleið Ítalíu hefur ekki verið lægra svo menn muni eftir. Yfirborð Rínarfljótsins er sömuleiðis lægra og hafa flutningaskip neyðst til að draga úr farmi og til að standa undir kostnaði af því hefur flutningskostnaður hækkað um allt að 50%.

Vatnsmagn í vatnsbólum á Spáni var komið niður í 45% í byrjun ágúst og í einu tilfelli niður í 13%, en þá er stutt í að vatnið sé ónothæft. Í París hefur verið brugðið á það ráð að rykbinda ekki göngustíga í almenningsgörðum með vatni. Garðyrkjumönnum í Englandi hefur verið meinað að nota garðslöngur og sundlaugar standa nú víða tómar á Spáni.

Landbúnaður í Evrópu er í mikilli hættu og er búist við að tapið hlaupi á hundruðum milljarða króna. Á Ítalíu stefnir í að framleiðsla á rófum, maís, hrísgrjónum og dýrafóðri nái sögulegu lágmarki. Reiknað er með að ítalskir bændur tapi um 45 milljörðum í kjölfar þurrkanna. Talsmaður umhverfisnefndar þingsins segir að neyðarástand landbúnaðarins mætti helst líkja við náttúruhamfarir.

Bændum á Spáni hefur verið skammtað vatn og er spáð að kornuppskeran þar í landi minnki um 17%. Einnig er búist við minni uppskeru í Þýskalandi og Póllandi, en pólska ríkisstjórnin hefur lofað að leggja til allt að 11,6 milljarða til aðstoðar bændum sem tapa meira en þriðjungi tekna sinna vegna þurrksins. Vegna þurrkanna er víða minna sáð af vatnsfrekum tegundum, hrísgrjónum, korni og hveiti, en umhverfisráðuneyti Frakklands segir að með 20% minnkun í kornrækt undanfarin fjögur ár hafi sparast vatn sem nægir sex milljónum manna til drykkjar.

Einhverjar uppskerur hafa komið upp of snemma vegna þurrksins og hafa því verið skildar eftir. Franskir bændur hafa áhyggjur af því að hitinn valdi frönskum kúm óþægindum og hafi áhrif á frjósemi þeirra og því geti kálfakjötsframleiðsla minnkað um 10-15%.

Skógareldar hafa geisað á Spáni og Portúgal í þurrkatíðinni og hafa þúsundir hektara af skóglendi brunnið. Um hundrað skógareldar geisa enn og hafa þrír látist, að minnsta kosti.

Sumar þjóðir hafa neyðst til að framleiða meira rafmagn með olíu vegna minnkandi framleiðslu vatns- og kjarnorku. Þar sem olían er mun dýrari hefur orkuverð hækkað gríðarlega í kjölfarið. Kjarnorkuver nota vatn úr ám til að kæla kjarnaofna sína, en nú þegar hitastig þeirra hækkar þýðir það minni framleiðslu. Rínarfljótið hefur náð allt að 28 gráðu hita og hefur verið takmarkað það vatn í Þýskalandi sem kjarnorkuver mega nota til kælingar. Frakkar hafa hækkað hámarkshitastig vatns sem kjarnorkuver mega dæla aftur út í ár en EDF, stærsti rafmagnsframleiðandi Frakklands, hefur engu að síður þurft að flytja inn orku á háu verði.

Komið hefur í ljós að þjóðir eru misvel undirbúnar fyrir þurrkatíð, en á Ítalíu er talað um að allt að 40% af regnvatni sem safnað er tapist vegna leka.