Meðal þeirra nýjunga í markaðssetningu sem samfélagsmiðlar hafa haft í för með sér er notkun svokallaðs áhrifafólks (e. influencers) til að kynna vörur og þjónustu fyrirtækja. Þótt erfitt sé að mæla nákvæmlega hversu stórt hagkerfi er í kringum áhrifafólk á samfélagsmiðlum er ljóst að fyrirtæki eru tilbúin að verja miklum fjármunum í að notfæra sér þá athygli sem vinsælir notendur samfélagsmiðla hafa sankað að sér.

Engar nákvæmar kannanir hafa verið gerðar á umfangi áhrifafólks á samfélagsmiðlum í markaðssetningu fyrirtækja en samkvæmt könnun sem markaðsrannsóknarfyrirtækið eMarketer framkvæmdi í fyrra sagðist 61% markaðsstjóra í Bandaríkjunum ætla að auka við það fjármagn sem renna ætti til slíks áhrifafólks á árinu 2015.

Bresk-íslenska fyrirtækið Takumi byggir starfsemi sína í kringum slíkt áhrifafólk en það býður í stuttu máli upp á eins konar markaðstorg þar sem fyrirtæki geta náð saman við fólk sem hefur yfir 1.000 fylgjendur á Instagram. Þjónusta fyrirtækisins fór í loftið fyrir fimm mánuðum og að sögn Jökuls Sólberg Auðunssonar, eins fjögurra stofnenda fyrirtækisins, hefur gengið vel að kynna vöruna fyrir bæði auglýsendum og áhrifafólki. „Við erum búnir að vera í loftinu í fimm mánuði, vinnum með mörg hundruð manns í London og höfum gert um hundrað herferðir,“ segir Jökull um árangur fyrirtækisins. „Við erum að stækka herferðirnar og kúnnarnir eru farnir að verða flottari. Við finnum fyrir því að fólk er orðið opnara og opnara fyrir þessu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .