Englandsbanki  hefur ítrekað þá skoðun sína að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu hefði neikvæð áhrif á breskt hagkerfi og fjármálamarkaði. Áhættan á útgöngu Bretlands virðist þó einskorðast við pundið enn sem komið er. Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar bankans sem birt var í dag.

Bankastjóri Englandsbanka hafði áður sagt að þjóðaratkvæðagreiðslan um framtíð Bretlands innan ESB, sem haldin verður í júní, hafi leitt til veikingar pundsins upp á síðkastið en sú skoðun var ítrekuð í fundargerðinni.

„Það virðist vera aukin óvissa í tengslum við tilvonandi þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands innan Evrópusambandsins,“ kom fram í fundargerðinni. „Þessi óvissa hefur líklega haft veruleg áhrif á veikingu pundsins. Hún mun líklega einnig koma til með að fresta fjárfestingarákvörðunum og draga úr hagvexti til skamms tíma.“

Áhrifin virðast þó einskorðast við pundið en í fundargerðinni segir að litlar vísbendingar séu um að atkvæðagreiðslan hafi haft áhrif á breska verðbréfamarkaði. Engu að síður mun bankinn halda áfram að fylgjast náið með þróun mála.

Ákvörðunin um að halda vöxtum bankans óbreyttum í 0,5% var einróma.

Hér er hægt að lesa fundargerðina í heild sinni.