Ísland kom sérstaklega illa út úr hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, meðal annars vegna þess að ekkert ríki stóð við bakið á okkur í kjölfar bankahrunsins í fyrrahaust.

Þetta er meðal annars það sem kemur fram í nýrri bók eftir Ásgeir Jónsson, forstöðumann greiningardeildar Kaupþings, Why Iceland? How the World’s Smallest Country Became the Meltdown’s Biggest Casualty , sem kom út í Bandaríkjunum í vikunni.

„Strax í haust langaði mig til að skrifa bók um hrunið. Þá kom í ljós að erlendar útgáfur höfðu mikinn áhuga á því að gefa þessa bók út enda hafa íslenskir bankar og íslenskt efnahagslíf verið mikið í fréttum undanfarið,“ segir Ásgeir í samtali við Viðskiptablaðið.

Ásgeir segir að í raun sé um að ræða 20 ára sögu, frá því að þorskstofninn hrundi árið 1988, en stærsti hluti sögunnar gerist þó á síðastliðnum 10 árum, frá árunum 1998 – 2009.

Þá segir Ásgeir að allt til ársins 2005 hafi íslenska útrásin tekist vel en fyrirtæki voru tiltölulega ódýr eftir að „netbólan“ sprakk við upphaf síðasta áratugar. Þannig hafi útrásin gengið vel til að byrja með og góður árangur í yfirtökum á fyrirtækjum erlendis hafi orðið til þess að fjárfestingarbankastarfsemi varð sjálfstæð grein hér landi.

„Síðan verða skyndilega straumhvörf á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og þá má segja að Íslendingar hafi fengið kreppuna beint í fangið og ekki vitað hvað væri að gerast,“ segir Ásgeir.

„Það stafar fyrst og fremst af okkar eigin andvaraleysi en þá vegur einnig þungt að ekkert erlent ríki stóð við bakið á okkur þegar erfiðleikarnir komu upp.“

Aðspurður um það hvort íslenskir viðskiptamenn hafi ekki gert sér grein fyrir hættunni sem fylgdi því að vera með lítinn gjaldmiðil í stóru alþjóðlegu hagkerfi segir Ásgeir að svo hafi ekki verið að öllu leyti enda sé helsta vandamálið núna að landsmenn hafi kerfisbundið vanmetið þá áhættu sem fylgir erlendum lántökum.

Aðspurður um það hvort ekki sé of snemmt að skrifa bók þar sem hrunið sé útskýrt segir Ásgeir að um það megi alltaf deila enda sé lengi von á nýjum upplýsingum. Hann hafi skilað handritinu af sér í lok maí og síðan þá hafi vitaskuld komið fram upplýsingar. Hann segir að enn eigi eftir að koma fram nýjar upplýsingar sem eigi eftir að varpa nýrri mynd á hrunið en hægt sé að vinna úr því síðar.