Mest hætta er á fjármálakreppu á Íslandi af öllum nýmörkuðunum sem greiningardeild fjárfestingarbankans Lehman Brothers fylgist með Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu deildarinnar þar sem áhætta á nýmörkuðum er metin á svokölluðum Demóklesarskala (e. Democles index). Ísland hlýtur einkunnina 89 á skalanum, en einkunnin 75 þýðir að þriðjungslíkur séu á fjármálakreppu og 100 helmingslíkur. Næst á eftir Íslandi er Rúmenía sem hlýtur einkunnina 67, en meðaltalseinkunnin er 16. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.


Skalinn byggir á þjóðhagfræðilegum stærðum sem notaðar eru til þess að meta hve líklegt sé að gjaldmiðill landanna verði fyrir snarpri veikingu. Aðferðafræðin er svipuð þeirri sem matsfyrirtæki beita nema ólíkt þeim tekur Demóklesarskalinn ekki tillit til ríkisábyrgðar ef til gengishruns kemur.


Um Ísland segir að landið sé minnsta opna hagkerfi heimsins með frjálsa fjármagnsflutninga og því komi ekki á óvart að landið hljóti hæstu einkunnina. Mjög stórir og skuldsettir bankar valdi því skuldsetning og viðskiptahalli reiknast til hárrar einkunnar. Þá ýta stórar fjárfestingar í álverum og mikið flæði skammtímafjármagns inn í hagkerfið einnig einkunninni upp. Hins vegar segir að breytingar á einkunn landsins séu jafnvel áhugaverðari en sjálf einkunnin. Áhættan hafi minnkað undanfarið og gjaldmiðilinn sé ekki í hættu eins og sakir standa. Verð hlutabréfa hafi hækkað, gjaldeyrissjóður Seðlabankans hafi verið styrktur og hærri stýrivextir séu loks að skila sér í vaxtarófið. Talið sé að viðskiptahallinn muni dragast verulega saman á næstunni og því ætti áhættan að halda áfram að minnka.