Samkvæmt Hálf fimm fréttum Kaupþings [ KAUP ] mun gengi krónunnar áfram einkennast af sveiflum næstu misseri en samt sem áður haldast nokkuð sterkt. Greiningardeild gerir þó ráð fyrir því að krónan taki dýfu um miðbik 2008 við upphaf vaxtalækkunarferils Seðlabankans. Krónan mun þó rétta sig við aftur vegna hás vaxtamunar við útlönd enda verður svigrúm til vaxtalækkana takmarkað. Greiningardeild gerir ráð fyrir að gengi krónunnar verði fremur sterkt út árið og að gengisvísitalan sveiflist í kringum 116 stig. Mesta óvissan lýtur að framgangi alþjóðlegra vaxtamunarviðskipta og má gera ráð fyrir áframhaldandi sveiflum.
Vaxtamunur við útlönd áfram hár
Vaxtamunur við útlönd mun áfram verða umtalsverður en dragast eilítið saman samkvæmt spá Greiningardeildar, eða úr 9% í 6% árið 2009 (m.v. tveggja ára vaxtamun). Um mitt ár 2008 mun gengi krónunnar taka að veikjast en þá verða merki um kólnun hagkerfisins farin að koma fram og vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefst.