Fjárfestingabankarnir JPMorgan Chase, Merrill Lynch og Citigroup eru meðal þeirra fjármálastofnana sem skila uppgjörum í næstu viku. Einnig verða tveir verðbólguhagvísar birtir, vísitala neysluverðs og vísitala framleiðsluverðs. Einnig verða birtar tölur um nýbyggingar og Seðlabankinn mun birta hagvísa sína [e. Beige Book].

Markaðir eru þegar afar viðkvæmir fyrir neikvæðum fregnum, en nokkrar vonir eru þó bundnar við uppgjör fyrsta fjórðungs. Fjárfestar reyna nú að sjá til botns í þeirri niðursveiflu sem nú á sér stað, og einn viðmælandi Reuters segir að fyrst og fremst verði litið til þess hvort tap fjármálastofnana sé farið að minnka og farið sjást til sólar.

Reikna má með að sérstaklega verði litið til JPMorgan Chase, en fjárfestingabankinn hefur samið um að taka yfir Bear Stearns með fulltingi bandaríska seðlabankans. Talið er að hagnaður á hlut muni dragast saman um helming, en JP hefur engu að síður staðið lánsfjárkreppuna af sér betur en margir keppinauta sinna og hafði ekki stórt hlutfall undirmálslána í eignasafni sínu.