Margt hefur gerst síðan félagarnir Garðar Stefánsson og Atli Bollason fengu hugmynd um að gera heimildarmynd um íslensku krónuna vorið 2008. Þá var Garðar í hagfræðinámi og Atli í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. „Þá kom fyrst þessi umræða um upptöku evrunnar af því að krónan var ekki að valda því að vera þessi alþjóðlega viðskiptamynt sem hagkerfið hér ýtti undir,“ segir Garðar. „Mér fannst það svo spennandi vegna þess að fólk vissi ekkert hvað þetta snerist um í raun. Fólk vissi ekkert hvað gjaldmiðlar voru og ég held að voða fáir hafi einhvern tímann velt því fyrir sér fyrir þetta að einhver önnur mynt en krónan gæti verið í notkun hér á landi. Við fórum þess vegna í þessa kjarnaspurningu: hvað eru peningar? Það að taka upp evru var fyrir mörgum eins og að skipta þjóðtrúnni yfir í múhameðstrú. Þetta brýtur heimsmyndina.

Við fórum þess vegna af stað í þetta verkefni, við Atli. Okkur fannst það sniðug pæling að hafa hagfræðing og bókmenntafræðing á bak við þetta til þess að geta útskýrt þetta á einfaldan hátt. Ákvörðunin var þá að búa til mynd sem átti fyrst og fremst að útskýra hvað krónan væri og hvað það þýddi að taka upp evru. Þetta var grunnhugmyndin og við fengum styrki frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og Evrópu unga fólksins til þess. Markmiðið í upphafi var að klára stiklu og handrit fyrir myndina og fara svo í fullar tökur veturinn 2008. Við kláruðum handritið í ágúst, skiluðum skýrslu til Nýsköpunarsjóðs námsmanna, vorum búnir að útvega okkur skrifstofuhúsnæði í Reykjavíkurakademíunni og svo breyttust forsendur myndarinnar algjörlega.“

Svo hrundi allt

„Hér varð náttúrulega hrun,“ bætir Atli við og hlær. „Það voru ekki bara vinnuforsendurnar sem breyttust heldur fannst okkur líka að aðstæðurnar kölluðu á ákveðna endurhugsun á verkefninu. Það voru öðruvísi aðstæður og önnur forgangsröðun í spurningunum sem við ætluðum að tækla.“ „Síðan æxlaðist það þannig að við fluttumst báðir til útlanda og verkefnið tafðist og á sama tíma varð umræðan enn þá áhugaverðari,“ segir Garðar. „Fyrst var talað um að við þyrftum strax að taka upp evru. Síðan var krónan alveg að bjarga okkur úr þessu ástandi. Síðan kom umræða um einhliða upptöku evru og fleira. Það sem mér finnst persónulega áhugaverðast er innganga rafrænna frjálsra gjaldmiðla. Ég er handviss um að það sé framtíðin. Myndin þurfti á þessum tíma að halda. Auðvitað vildum við alltaf klára hana sem fyrst en í dag er ég mjög feginn að við gerðum það ekki fyrr en núna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Hér má sjá stiklu fyrir myndina: