Helga Björk Eiríksdóttir, forstjóri Innova sem er móðurfélag byggingafélaganna JB byggingafélags og Ris, hefur áhuga á að bæta ímynd verktakageirans, sem að einhverju leyti hefur beðið hnekki í þeim mikla byggingarhraða sem hefur einkennt síðustu misseri, með faglegum samskiptum við hagsmunaaðila; íbúa, sveitafélög og verktaka, þegar reisa skal byggingar og vera samfélagslega ábyrg að því leytinu til.

„Við viljum koma þessum samskiptum í betri farveg og hafa hagsmunaaðila fyrr með í ferlinu eftir því sem því verður við komið," segir hún í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Aðspurð hvernig megi bæta þessi samskipti svarar Helga Björk: „Almennt hefur orðið vitundarvakning um skipulagsmál. Undanfarin fimm til tíu ár hefur umræðan verið að breytast. Ég held að bæjaryfirvöld finni líka þennan þrýsting frá íbúum. Það er allra hagur að hafa meira samráð og gera það fyrr í ferlinu. Ég held að ef við leggjum okkur fram við það í þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur, að beita okkur fyrir því að íbúarnir verði hafðir með þegar það er hægt, þá hljótum við að geta haft áhrif þegar fram í sækir. Að sjálfssögðu er ég ekki að tala um það að við breytum ímynd geirans á einu ári en þetta er langtímamarkmið. Við erum alveg sannfærð um að það sé hægt að gera þetta."

----------------------------------------------------------

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .