Evrópskt fyrirtæki hefur óskað eftir viðræðum við sveitastjórnaryfirvöld í Eyjafirði og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar um hugsanlega byggingu álþéttaverksmiðju þar. Um er að ræða úrvinnslu á áli með rafgreiningu og flóknum tæknibúnaði. Framleiðslan er talsvert orkukræf og gæti orkuþörf orðið allt að 70 MW allt eftir stærð verksmiðjunnar, en auk þess er notað mikið hreint vatn til skolunnar og kælingar. Miðað við mannaflaþörf í samskonar verksmiðjum gæti verksmiðjan skapað 150-200 störf.

Forsaga málsins er sú að í febrúar s.l. slitnaði upp úr viðræðum við japanskt fyrirtæki um samskonar verksmiðju sem þá var langt komin í undirbúningi. Fljótlega eftir það hafði AFE samband við helstu fyrirtæki í þessum bransa til að kynna þeim ákjósanlegar aðstæður á Akureyri. Evrópskt fyrirtæki sýndi málinu strax áhuga og óskaði eftir frekari upplýsingum. Á grundvelli þeirra hefur fyrirtækið nú óskað eftir viðræðum.